top of page

Um okkur

Saga Skipalyftunnar frá árinu 1981 til dagsins í dag

Skipalyftan ehf. Vestmannaeyjum var stofnuð 14. nóvember 1981 af vélsmiðjunum Magna og Völundi ásamt raftækjaverkstæðinu Geisla. Vélsmiðjurnar Magni og Völundur hættu rekstri og sameinuðust í hinu nýja félagi. Stofnendur Skipalyftunnar voru þeir Gunnlaugur Axelsson, Tryggvi Jónsson, Pétur Andersen, Kristján Ólafsson, Þórarinn Sigurðsson, Tryggvi Jónasson, Jón Yngvi Þorgilsson, Njáll Andersen, Erlendur Eyjólfsson og Friðþór Guðlaugsson.  

​

Þann fyrsta júní 1982 tók hið nýja félag formlega við lyftunni og þeim mannvirkjum sem henni fylgja á leigu til 25 ára.

Screenshot 2021-11-11 at 10.24.20.png

Það hafði verið í undirbúningi lengi að byggja nýjan slipp í Vestmannaeyjum sem hefði það að markmiði að leysa gömlu dráttarbrautirnar á Skipasandi af hólmi enda var það rætt í hafnarstjórn Vestmannaeyja árið 1954 um möguleg kaup á nýrri skipalyftu.  Það var svo árið 1968 sem ákveðið var að ganga inn í samning sem Hafnarðarbær hafði gert um kaup á skipalyftu frá Bandaríkjunum.  Lyftubúnaðurinn var fluttur til Vestmannaeyja árið 1972.  

​

Þegar eldgosið á Heimaey hófst síðan þann 23.janúar 1973 tóku önnur og mikilvægari verkefni við enda óljóst á tímabili hvort fólk mynd hreinlega snúa aftur til Vestmannaeyja.  Ákveðið var að flytja lyftubúnaðinn aftur upp á land til að forðast skemmdir.  Framkvæmdir lágu niðri í nokkur ár en það var svo árið 1979 að hafist var handa af fullum krafti og lauk framkvæmdum við nýja skipalyftu í Vestmannaeyjum árið 1981.  

Screenshot 2021-11-11 at 10.24.49.png

Það var í mörg horn að líta hjá Gunnlaugi Axelssyni og Kristjáni Ólafssyni, fyrstu framkvæmdastjórum Skiplyftunnar, og þeim 80 starfsmönnum sem störfuðu þar fyrstu árin.  Flotinn í Vestmannaeyjum var stór og mikil búbót fyrir útgerðamenn að þurfa ekki að framkvæma nauðsynlegar breytingar, auk almenns viðhalds, á skipum sínum á fastalandinu, svo ekki sé talað um erlendis.  Má þar m.a. nefna lengingar á skipum, yfirbyggingar og nýjar skipsbrýr en þessi verkefni höfðu áður verið öll unnin annarsstaðar en í Vestmannaeyjum.  

​

Árið 1998 markaði ákveðin tímamót í sögu Skipalyftunnar en þá kláraði Skipalyftan sína fyrstu, og einu, nýsmíði þegar dráttarbáturinn Lóðsinn var afhendur eigendum sínum, Vestmannaeyjabæ.  Lóðsinn vegur 156 brúttó tonn, er 22,5 metrar á lengd og 7,33 metrar að breidd.  Allt frá fyrsta degi hefur þessi frábæri Lóðsbátur þjónustað hlutverki sínu vel og margsannað að um vandað skip er að ræða.  

Screenshot 2021-11-11 at 10.25.00.png

Í dag starfar Skipalyftan fyrst og fremst sem plötusmiðja, véla- og renniverkstæði auk þess að þjónusta skip í upptökumannvirki Vestmannaeyjahafnar. Skipalyftan heldur einnig úti lager og verslun með mikið úrval af vörum tengdum málmiðnaði, sjósókn og veiðum.

​

Nýlega byggðum við 2 hús við hlið Skipalyftunnar, sem hvort um sig eru 700 fermetrar að stærð.  Annað þeirra er að mestu leiti í útlegu en í hitt húsið höfum við nú fært vélaverkstæðið okkar sem er komið með glæsilega aðstöðu fyrir okkar frábæru starfsmenn.

 

Í dag starfa um 40 manns hjá Skipalyftunni. Þar af eru 3 starfsmenn sem hafa starfað allt frá stofnun félagsins eða síðan 1981, þau Anna Sigrid Karlsdóttir, Hlynur Richardsson og Stefán Örn Jónsson sem er framkvæmdastjóri Skipalyftunnar. 

Screenshot 2021-11-11 at 10.25.22.png

Í stjórn sitja þeir Þórarinn Sigurðsson, stjórnarformaður, Stefán Örn Jónsson,

Ólafur Friðriksson og Jón Viðar Stefánsson.

Starfsmenn5.JPG
bottom of page